Breytt fyrirkomulag úthlutunar úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands
Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hefur ákveðið að breyta verklagi við úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Á 632. stjórnarfundi samtakanna var samþykkt að fækka úthlutunum sjóðsins úr tveimur á ári í eina. Breytingin verður innleidd sem tilraunaverkefni til næstu tveggja ára.
Í kjölfar ákvörðunarinnar mun hefðbundin vorúthlutun, sem jafnan hefur farið fram í febrúar eða mars, ekki eiga sér stað á árinu 2026. Í staðinn verður boðað til einnar úthlutunarlotu næstkomandi haust.
Markmið breytingarinnar er að samræma verklag SASS við önnur landshlutasamtök, sem öll hafa tekið upp það fyrirkomulag að úthluta einu sinni á ári. Jafnframt er lögð áhersla á að auka skilvirkni í umsýslu sjóðsins og tryggja að mannafli og fjármunir nýtist sem best í þágu byggðaþróunar á Suðurlandi.
Með breytingunni er einnig gert ráð fyrir auknu svigrúmi fyrir byggðaþróunarfulltrúa og verkefnastjóra SASS til að sinna ráðgjöf, eftirfylgni og öðrum stefnumótandi þróunarverkefnum yfir árið.
Talið er að ein árleg úthlutun stuðli að betri yfirsýn og auknu gagnsæi við mat á umsóknum. Þegar allar umsóknir liggja fyrir á sama tíma skapast betri forsendur fyrir markvissa forgangsröðun í samræmi við áherslur Sóknaráætlunar Suðurlands og sanngjarnan samanburð verkefna. Með því er dregið úr tilviljanakenndum ákvörðunum og jafnræði umsækjenda tryggt.
Þrátt fyrir breytingu á úthlutunartíðni verður áfram starfað í tveimur flokkum, Menningu annars vegar og Atvinnuþróun og nýsköpun hins vegar. Fagráð munu starfa með sama hætti og áður.
Tilraunaverkefnið verður metið að tveimur árum liðnum og í kjölfarið tekin ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag úthlutana.