Upplýsingar
- Hafnarberg 1, 815 Þorlákshöfn
- + 354 694 1006
- info@olfuscluster.is

„Við lítum á Ölfus sem lykilsvæði í uppbyggingu innviða fyrir Kaldvík. Fyrstu stig eldisins fara fram í fersku grunnvatni að Bakka og Fiskalóni og síðan í jarðsjó á Laxabraut. Við horfum til þess að byggja hér upp trausta innviði í góðu samstarfi við framsýnt sveitarfélag.“ segir Ólöf Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Kaldvík.
Ólöf Helga Jónsdóttir
Í Ölfusi rekur Kaldvík þrjár starfstöðvar á Fiskalóni, Bakka og Laxabraut. Á Fiskalóni og Bakka eru seiðaeldisstöðvar þar sem frjóvguð hrogn eru alin upp í smálaxa, á bilinu 40 til 150 grömm, í einstöku ferskvatni. Seiðin fá þar fyrsta flokks umönnun í sérhönnuðum tönkum og fara í gegnum aðlögunarferli yfir í saltvatn. Með þessari aðferð tryggir fyrirtækið heilbrigðan vöxt og góða dýravelferð áður en seiðin flytjast yfir á Laxabraut og þaðan í sjóeldisstöðvar félagsins á Austjörðum.
„Seiðastöðin í Ölfusi er hjarta framleiðslukeðjunnar. Hér leggjum við grunninn að heilbrigðum og sterkum laxi með ábyrgri nýtingu náttúruauðlinda,“ segir Ólöf.
Til að styðja við þennan vöxt lauk Kaldvík nýverið við endurfjármögnun að andvirði 40 milljarða króna, sem skiptist í sambankalán upp á 33 milljarða og hlutafjáraukningu upp á 6,6 milljarða. Með þessum fjárhagslega styrk vinnur félagið að því að efla virðiskeðju sína, meðal annars með kaupum á kassaverksmiðju og sláturhúsi, og tryggja framleiðslu með öflugum innviðum og hagræðingu sem getur numið allt að 3 milljónum evra á ári.
„Við höfum fjárfest í því að geta sinnt öllu framleiðsluferlinu sjálf og höldum því markvisst áfram. Þetta skapar bæði verðmæti og störf á Íslandi,“ segir Ólöf.
Samkvæmt mati á tengdum verkefnum má gera ráð fyrir að starfsemi Kaldvíkur í Ölfusi og skyld verkefni muni halda áfram að skapa fjölda verðmætra starfa í Ölfusi.
Kaldvík tekur virkan þátt í HYDROS verkefninu sem hefur það markmið að samræma vöktun og nýtingu grunnvatns og jarðsjóar í Þorlákshöfn og nágrenni. Þar vinna fyrirtæki og sveitarfélög saman að rauntímavöktun með hjálp vöktunarborhola til að tryggja sjálfbæra auðlindanýtingu og vernd vistkerfa.
„HYDROS styrkir ekki aðeins rekstur okkar heldur einnig samfélagslega ábyrgð. Með reglulegum mælingum og viðbragðsáætlunum viljum við tryggja að starfsemi okkar og annarra á svæðinu hafi ekki neikvæð áhrif á grunnvatnsforðann, gætum þannig að sjálfbærni og tryggjum heilbrigt umhverfi til framtíðar,“ segir Ólöf.
Með öfluga seiðastöð í Ölfusi, nýja fjármögnun og skýra framtíðarsýn í sjálfbærni og gæðum er Kaldvík í kjörstöðu til að verða leiðandi afl í íslensku og alþjóðlegu laxeldi og leggja sitt af mörkum til matvælaöryggis framtíðarinnar.