Sameiginleg fréttatilkynning frá First Water, Laxey, Samherja Fiskeldi og Thor landeldi
í samstarfi við Terraforming LIFE og Bændasamtök Íslands
Landeldisfyrirtæki sameinast um verðmætasköpun úrgangsstrauma
Fjögur leiðandi landeldisfyrirtæki á Íslandi – First Water, Laxey, Samherji Fiskeldi og Thor landeldi – hafa undirritað viljayfirlýsingu um formlegt samstarf sem miðar að ábyrgri og sjálfbærri meðhöndlun úrgangsstrauma frá landeldi.
Markmið samstarfsins
Samstarfið felur í sér að hefja undirbúning að stofnun sameignarfélags sem muni sinna áframvinnslu á landeldismykju.
-
Umbreyta úrgangsstraumum í verðmætar afurðir
-
Efla sjálfbærni í landeldi
-
Styðja við hringrásarhagkerfi Íslands
Fyrirtækin hafa sammælst um að vinna viðskiptaáætlun og greina fjárþörf næstu 24 mánaða. Niðurstöður verða kynntar fyrir stjórnum fyrirtækjanna fyrir lok október 2025.
Samstarf við Bændasamtök Íslands
Gert er ráð fyrir náinni samvinnu við Bændasamtök Íslands og aðra hagsmunaaðila sem tengjast málefninu. Viljayfirlýsingin er jafnframt liður í vinnu innan verkefnisins Terraforming LIFE, sem styrkt er af Evrópusambandinu og hefur það markmið að þróa leiðir til að umbreyta bæði landeldismykju og búfjármykju í lífrænan áburð og lífgas.

Skref til framtíðar
„Þessi viljayfirlýsing sýnir að íslenskt landeldi er tilbúið að sameinast og vinna að sjálfbærum lausnum. Með þessu sameiginlega framtaki, í samstarfi við Terraforming LIFE og Bændasamtök Íslands, er stefnt að því að umbreyta úrgangsstraumum í verðmætar afurðir og styrkja hringrásarhagkerfi Íslands. Þetta er mikilvægt skref fyrir landeldið og til fyrirmyndar,“ segir Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.
Lesa einnig í Viðskiptablaðinu: Undirbúa stofnun sameiginlegs félags um landeldismykju

