Matvælasjóður opnar fyrir umsóknir
Tækifæri fyrir nýsköpun í matvælageiranum
Opnað verður fyrir umsóknir í Matvælasjóð 2. febrúar 2026 og er umsóknarfrestur til 27. febrúar 2026. Þetta skapar mikil tækifæri fyrir frumkvöðla, fyrirtæki og rannsóknaraðila sem vilja þróa nýjar lausnir og styrkja samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.
Hlutverk Matvælasjóðs er að styðja við nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni í framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaði og sjávarafurðum. Sjóðurinn styður verkefni á öllum stigum – allt frá hugmyndum til markaðssetningar og hagnýtra rannsókna.
Umsóknir eru teknar í fjórum styrkjaflokkum:
- Bára – hugmyndastigið, að færa hugmyndir nær framkvæmd.
- Kelda – rannsóknaverkefni til að afla nýrrar þekkingar.
- Afurð – verkefni komin af hugmyndastigi en ekki tilbúin til markaðssetningar.
- Fjársjóður – styrkir markaðsinnvið og markaðssókn fyrir afurðir úr íslenskum hráefnum.
Umsóknir fara fram í gegnum stafræna umsóknarkerfið Afurð á afurd.is og mikilvægt er að kynna sér handbók sjóðsins áður en hafist er handa við umsóknarvinnu.
Ölfus Cluster er ávallt til taks til að aðstoða umsækjendur, hvort sem er með leiðbeiningar, yfirferð hugmynda eða stuðning við umsóknarferlið. Markmið klasans er að styðja við metnaðarfull verkefni á sviði matvæla, nýsköpunar og sjálfbærrar verðmætasköpunar.
Matvælasjóður er lykilverkfæri í að efla íslenskan matvælageira og hvetur Ölfus Cluster áhugasama aðila eindregið til að nýta þetta tækifæri.