Umfangsmikil uppgræðsla og ný áhersla á lífrænan áburð í Þorláksskógum

Verkefnisstjórn Þorláksskóga fundaði á Selfossi 18. nóvember 2025 þar sem farið var yfir framkvæmdir ársins og mótaðar áherslur fyrir næstu skref í verkefninu. Á árinu 2025 var tilbúnum áburði dreift á um 300 hektara lands, sem er veruleg aukning frá fyrra ári, og alls um 65 þúsund trjáplöntur gróðursettar á tveimur megin svæðum.

Þýsku samtökin Woodsup komu að gróðursetningu um 50.000 plantna á uppgrædda sanda sunnan vatnsverksmiðjunnar, auk þess sem ferðamenn tóku þátt í gróðursetningu á plöntum sem Grétar Ingi Erlendsson hafði umsjón með. Framlag Lands og skógar til verkefna á svæðinu nam rúmlega 17 milljónum króna á árinu.

Á fundinum var einnig fjallað um notkun lífræns áburðar, meðal annars fiskiseyru, kjötmjöl og aðrar hliðarafurðir. Stefnt er að aukinni notkun lífrænna lausna í stað innflutts tilbúins áburðar, þó áskoranir séu til staðar varðandi leyfisveitingar. Ákveðið var að efla fræðslu til heimamanna og sveitarstjórnar um kosti lífræns áburðar og skrifa grein um þróun og árangur Þorláksskóga frá upphafi.

Þá var rætt um nauðsyn vegabóta og slóðagerðar á norðanverðum Hafnarsandi til að bæta aðgengi að uppgræðslu- og gróðursetningarsvæðum. Áformað er að óska eftir fjármagni í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2026 til að opna slóðir sem nýtast bæði til framkvæmda og útivistar í framtíðinni.

Næsti fundur verkefnisstjórnar er áætlaður um miðjan janúar 2026.