Mikil uppbygging fram undan í Þorláksskógum árið 2025

Verkefnastjórn Þorláksskóga kom saman til fundar 12. mars 2025 þar sem farið var yfir stöðu verkefna, árangur síðasta árs og fyrirhugaðar aðgerðir á árinu 2025. Á árinu 2024 var unnið markvisst að landgræðslu á svæðinu í og við Þorlákshöfn, meðal annars með dreifingu áburðar á um 140 hektara lands á þremur lykilsvæðum til að draga úr sandburði og styrkja gróður.

Jafnframt voru gróðursettar samtals um 96 þúsund trjáplöntur af ýmsum tegundum, þar á meðal stafafuru, sitkabastarði, ösp og birki. Kjötmjöli var einnig dreift á afmarkað svæði til að bæta jarðveg og stuðla að uppgræðslu.

Fyrir árið 2025 eru fyrirhuguð áframhaldandi verkefni á sviði slóðagerðar, þar sem meðal annars er horft til nýrra slóða sem auðvelda aðgengi að gróðursetningarsvæðum. Einnig er stefnt að frekari áburðardreifingu og gróðursetningu trjáplantna, meðal annars í lúpínusvæði við veg yfir Selvogsheiði.

Á fundinum var jafnframt fjallað um samstarf við HYDROS vegna vöktunarhola á svæðinu og möguleika á samnýtingu slóða. Þá var rætt um viljayfirlýsingu sveitarfélagsins Ölfuss og Carbfix ehf. um að kanna fýsileika kolefnisförgunar í nágrenni Þorlákshafnar, með áherslu á vandaðan frágang og samspil við uppbyggingu útivistarsvæða.

Að lokum voru rædd möguleg rannsóknar- og þróunarverkefni í samstarfi við laxeldisfyrirtæki, Carbfix og önnur fyrirtæki, meðal annars tengd nýtingu lífræns áburðar og notkun dróna við dreifingu áburðar á erfitt aðgengileg svæði. Markmiðið er að efla Þorláksskóga enn frekar sem dæmi um markvissa landgræðslu, kolefnisbindingu og sjálfbæra landnýtingu.