Ölfus Cluster opnar dyrnar fyrir háskólanema – samstarf við Háskólann á Akureyri
Ölfus Cluster hefur gert samstarfssamning við Háskólann á Akureyri sem gerir nemendum kleift að taka próf og nýta sér náms- og vinnuaðstöðu í Ölfusi. Með þessu skapast aukin sveigjanleiki fyrir háskólanema sem vilja stunda nám nær heimabyggð í hvetjandi og faglegu umhverfi.
Háskólinn á Akureyri, sem er einn af stofnaðilum Ölfus Cluster, tryggir að próftaka fari fram í samræmi við reglur skólans. „Það er mikilvægt fyrir okkur að bjóða nemendum sveigjanlega og aðgengilega þjónustu, og samstarf við Ölfus Cluster gerir það mögulegt,“ segir Bryndís Ásta Böðvarsdóttir, verkefnastjóri prófa og námsmats við HA.
Auðvitað eru allir háskólanemar, óháð því hvaða skóla þeir sækja, velkomnir að nýta les- og vinnuaðstöðu hjá Ölfus Cluster gegn vægu gjaldi. „Við viljum leggja okkar af mörkum til að gera háskólanám aðgengilegra og sveigjanlegra,“ segir Eva Lind Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Ölfus Cluster. „Með þessu samstarfi og því að opna dyrnar fyrir háskólanema á svæðinu viljum við búa til umgjörð sem styður við bæði einstaklinga og samfélagið í heild.“
Stuðningur við frumkvöðla og fyrirtæki
Við höfum jafnframt leigt út vinnuaðstöðu í opnu skrifstofurými til frumkvöðla og fyrirtækja sem eru með starfsfólk í fjarvinnu eða vantar skrifstofurými í þægilegu og skapandi umhverfi. Þó svo að aðstaðan sé ekki stór þá viljum við einnig styðja við atvinnulífið og nýsköpun á svæðinu.
Nánari upplýsingar um aðstöðu, skilmála og verð má fá hjá verkefnastjóra Ölfus Cluster, Evu Lind Guðmundsdóttir.


