Ölfus – Vaxandi afl í íslenskri ferðaþjónustu
Ferðaþjónusta í Ölfusi hefur tekið miklum framförum á undanförnum árum. Fátt minnir nú á tímana fyrir rúmum áratug, þegar fyrstu vaxtarbroddarnir voru rétt að skjóta rótum. Í dag bera fjölbreytt þjónusta, ný fyrirtæki og kraftmikil uppbygging þess glöggt merki að Ölfus hefur fest sig í sessi sem raunhæfur og spennandi kostur til uppbyggingar ferðaþjónustu og tengdra greina – á einstökum stað á mörkum Suðurlands og Reykjaness, í aðeins stuttri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.
Nálægðin við Árborg og Hveragerði, sem og ört vaxandi miðbær Selfoss, styrkir aðdráttarafl svæðisins. Hér er stutt í náttúru, þjónustu og góða samgöngur – blanda sem gerir Ölfus að eftirsóknarverðum áfangastað fyrir bæði innlenda og erlenda gesti.
Hengilssvæðið og Reykjadalur mynda með Ölfusi lifandi heild þar sem fjöll, jarðhiti, strandlengja og sjávarlíf tengjast á náttúrulegan hátt. Þetta samspil eykur fjölbreytni og gerir svæðið áhugavert allt árið um kring. Með bættum tengingum við Reykjanes um Suðurstrandarveg styrkist staða Ölfuss enn frekar sem miðlægur og aðgengilegur áfangastaður á suðvesturhorninu.
Afþreying og náttúruupplifanir allt árið
Afþreying í Ölfusi er fjölbreytt og aðgengileg allt árið um kring. Gestir geta upplifað náttúruna á margvíslegan hátt – hvort sem er á hestbaki, fjórhjóli eða í gönguferð um jarðhitasvæði eða svartar brimstrendur Þorlákshafnar og nágrennis. Með vinsælum áfangastöðum eins og Reykjadal og Raufarhólshelli, og fræðslusýningu á Hellisheiði, býður Ölfus upp á upplifun sem höfðar jafnt til ævintýragjarna ferðalanga og þeirra sem sækjast eftir meiri kyrrð.
Þessi fjölbreytta afþreying hefur jákvæð áhrif á samfélagið í Ölfusi – hún styrkir atvinnulíf, eykur lífsgæði og tengir heimamenn og ferðamenn í sameiginlegri upplifun. Þannig styrkir Ölfus stöðu sína sem eftirsóttur og lifandi áfangastaður innan íslenskrar ferðaþjónustu.
Ný verkefni og framtíðartækifæri
Ferðaþjónustan í Ölfusi stendur nú á tímamótum og ný verkefni eru sífellt að taka á sig mynd. Fram undan eru spennandi áfangar í uppbyggingu ferðaþjónustunnar, þar á meðal ný hótel og baðlón, auk nýrra veitingastaða og þjónustu sem styður við ört vaxandi eftirspurn. Einnig eru í vinnslu verkefni sem tengja saman útivist og hjólreiðaleiðir milli Ölfuss, Hveragerðis og Hengilssvæðis, sem og þróun íþrótta- og útivistarsvæða þar sem sund, golf, brimbrettaiðkun og frisbígolf verða áfram í lykilhlutverki.
Unnið er að uppbyggingu gestastofa hjá fyrirtækjum sem starfa í sveitarfélaginu, sem mun bæta fræðslu og upplifun tengda náttúru og nýsköpun. Þessi verkefni endurspegla metnað, frumkvæði og samvinnu þeirra sem standa að þróun ferðaþjónustunnar í Ölfusi.
Fjölbreytnin í verkefnunum sýnir að tækifærin eru mörg og að gróskumikill jarðvegur svæðisins býður upp á svigrúm fyrir frumkvöðla og samstarf við þá sem þegar hafa byggt upp sterka stöðu á svæðinu.
Samstarf eflist – undirbúningur sameiginlegs fundar í nóvember
Til að efla samstarf og samhæfa uppbyggingu í ferðaþjónustu hafa fulltrúar Ölfus Cluster, Sveitarfélagsins Ölfuss, Íslenska Ferðaklasans og Íslenskra fasteigna átt í virku samtali um næstu skref í sameiginlegri þróun greinarinnar í Ölfusi. 
Markmiðið er að skapa samhljóm milli aðila, stuðla að markvissri uppbyggingu og nýta tækifæri svæðisins sem best. 
Ákveðið hefur verið að boða til sameiginlegs kynningarfundar með ferðaþjónustuaðilum í Ölfusi í nóvember. Þar verður meðal annars undirritað samkomulag um inngöngu Ölfus Cluster í Íslenska Ferðaklasann.
Á fundinum verður einnig kynntur nýr samstarfsvettvangur ferðaþjónustunnar í Ölfusi, auk kynninga á uppbyggingarverkefnum sem eru í gangi eða í undirbúningi. Þá verður til umræðu mögulegt „systurverkefni Gullna hringsins“ sem miðar að því að kortleggja tækifæri til aukinnar samvinnu við valda staði á Suðurlandi og Reykjanesi í sameiginlegri vöruþróun.
Tækifæri til að móta framtíðina
Framtíð ferðaþjónustunnar í Ölfusi er björt. Greinin hefur alla burði til þess að verða ein af burðarásum atvinnulífsins í sveitarfélaginu og með öflugu samstarfi mun samkeppnisstaða þessar aðila eflast og skapa jarðveg fyrir frekari nýsköpun innan ferðaþjónustunnar í Ölfusi.
Allir sem starfa að ferðaþjónustutengdum verkefnum í Ölfusi eru hvattir til að mæta á kynningarfundinn miðvikudaginn 20. nóvember kl. 14:00 í Ráðhúsi Ölfuss og taka virkan þátt í að móta framtíð greinarinnar.
Áhugasömum er bent á að hafa samband við höfunda fréttarinnar eða fylgjast með opnun skráningar á fundinn á heimasíðu Ölfus Cluster.
Skráning á viðburðinn ⬇️