Upplýsingar
- Hafnarberg 1, 815 Þorlákshöfn
- + 354 694 1006
- info@olfuscluster.is
Þann 1. janúar sl. tók í gildi bann við urðun á lífbrjótanlegum úrgangi eða úrgangi sem brotnað getur niður fyrir tilstilli örvera. Tilgangur eða markmiðið með banninu er m.a. að stuðla að því að lífrænn úrgangur verði flokkaður frá öðrum úrgangi og undirbúinn fyrir endurnotkun, endurvinnslu eða aðra endurnýtingu og þannig skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Bannið knýr þannig fyrirtæki og samfélagið í heild til þess að finna þessum lífúrgangi farveg innan hringrásarhagkerfis sem á móti opnar á möguleikann á að skapa ný verðmæti ásamt því að stuðla að sjálfbærni samfélagsins í heild.
Lífúrgangur margfaldast með stórauknu eldi á landi
Stórhuga áætlanir í uppbyggingu á landeldi í Ölfusi munu þýða að mikill fiskúrgangur mun falla til sem þarf þá að finna farveg innan hringrásarhagkerfisins. Það er því ánægjulegt að heyra af áformum fyrirtækjanna Landeldis hf og GeoSalmo ehf um að nýta þann lífúrgang sem mun falla til í eldinu til að skapa ný verðmæti. Fyrirtækin áforma að fanga allan úrgang og vinna áfram fyrir eigin hliðarframleiðslu eða sem hráefnisstraum til þriðja aðila, eins og í ræktun og til framleiðslu áburðar. Áherslur sveitarfélagsins í umhverfismálum og auðlindanýtingu knýja jafnframt á um að nýir lóðaleigusamningar á atvinnu- og iðnarsvæðum í Ölfusi muni innhalda kvaðir um að viðkomandi fyrirtæki taki þátt í uppbyggingu á hringrásarhagkerfinu á svæðinu. Þetta er mjög svo já fréttir, ekki síst þar sem forsenda þess að skapa verðmæti úr lífúrgangi frá fiskeldi, er að til staðar sé nægjanlegt og stöðugt framboð sem þá nýtist sem hráefni til framleiðslu á nýrri afurð.
Hagrænar aðgerðir og samfélagsleg ábyrgð
Ljóst er að töluverð hagræn tækifæri felast í því að lífúrgangi sé safnað enda hefur komið fram að sama magn næringarefna er í innlendum úrgangi og innfluttum áburði (Skýrsla: Greining á magni lífrænna áburðarefna á Íslandi og tækifæri til aukinnar nýtingar, Matís og Landgræðslan 2022). En þó að fjárhagslegur ávinningur sé til staðar þá er það ekki síður samfélagsleg skylda okkar að endurnýta þessa næringu eins og kostur er og minnka þannig sóun og stuðla að sjálfbærni. Þess má geta að þessi næring er ákjósanleg til að undirbúa jarðveg fyrir skógrækt og því einkar hentugt að nýta þann lífúrgang sem fellur til vegna fiskeldis í Ölfusi fyrir Þorláksskóga.
Fyrir áhugasama
Málefnið er brýnt enda óvíkjandi hluti í umræðunni um hringrásarhagkerfið og kolefnisfótspor í allri innlendri matvælaframleiðslu. Stefna íslenskra stjórnvalda er að ná kolefnishlutleysi 2040 og því til stuðnings er í undirbúningi á vegum Matvælaráðuneytisins, vegvísir sem mun taka mið af loftslagsstefnu stjórnvalda og stefnu um hringrásarhagkerfið um nýtingu á lífrænum efnum til áburðargjafar. Vegvísinum er ætlað að aðstoða við stefnumótun og gerð aðgerðaráætlana en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er stefnt á að drög að vegvísinum birtist fljótlega í samráðsgátt stjórnvalda.
Fagráð í lífrænum landbúnaði stendur síðan fyrir málþingi sem ber yfirskriftina „Af jörðu ertu kominn“ þar sem fjallað verður um, m.a. jarðgerð og verðmætasköpun í lífrænni ræktun. Efni málþingsins er m.a. ætlað að varpa ljósi á notkun á lífrænum áburði í landbúnaði hér á landi en þar verður Rúnar Már Þórarinsson hjá Landeldi einn af mörgum áhugaverðum frummælendum en hans viðfangsefni er landbætandi fiskeldi í Ölfusi.
Málþingið fer fram fimmtudaginn 2. mars nk. kl. 10–16. og verður haldið í Vigdísarhúsi á Sólheimum í Grímsnesi.