Upplýsingar
- Hafnarberg 1, 815 Þorlákshöfn
- + 354 694 1006
- info@olfuscluster.is
Efling hringrásarhagkerfisins dregur úr sóun og stuðlar að verðmætasköpun og velsæld án þess að ganga frekar á náttúruna. Fullnýting afurða og sköpun nýrra afurða úr hráefni sem fellur til sem úrgangur eða aukaafurð í annarri framleiðslu dregur jafnframt úr flutningsþörf. Víða erlendis hafa risið svokallaðir grænir iðngarðar þar sem fjöldi ólíkra fyrirtækja kemur sér fyrir á einu skipulögðu svæði og nýtir fjölda ólíkra orku-
og efnastrauma sem til verða í svo náinni sambúð. Hér á landi eru þekkt dæmi um nýsköpun í framleiðslu verðmæta úr ýmsu sem til fellur í sjávarútvegi og vaxandi áherslu hefur verið á fjölnýtingu orku- og efnastrauma frá jarðvarmaverum sbr. fjölda fyrirtækja í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi og Jarðhitagarði Orku náttúrunnar á Hellisheiði.
Þótt markmið verkefnisins sé kortlagning á grænum iðngörðum er almenn efling hringrásarhagkerfisins með fullnýtingu orku- og efnastrauma mjög mikilvæg. Fjölmörg tækifæri geta verið til að skapa ný tækifæri á þeim sviðum þótt slíkt leiði ekki til uppbyggingar skipulagðra grænna iðngarða.
Samantektin nú markar aðeins áfanga í vinnunni, ekki verklok. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun, í samvinnu við Íslandsstofu og lykil stofnanir og ráðuneyti, vinna áfram með ábendingar um umbætur og markvissara vinnulag til að efla samkeppnisstöðu Íslands og ýta undir þróun hringrásarhagkerfis og uppbyggingu grænna iðngarða. Atvinnuþróunarfélög og sveitarfélög hafa efni til að rýna tækifæri hvert á sínu svæði. Norðurþing og Landsvirkjun munu heimfæra almenna lærdóma úr vinnunni á Bakka og móta áfram vænlegustu kosti þar til uppbyggingar græns iðngarðs. Á meðan á fyrsta áfanga verkefnisins stóð komu fram enn nýjar hugmyndir og aukinn áhugi á þátttöku svo ljóst er að fjölmargir munu verða til þess að taka þessa mikilvægu nálgun á sjálfbæra verðmætasköpun áfram.