Upplýsingar
- Hafnarberg 1, 815 Þorlákshöfn
- + 354 694 1006
- info@olfuscluster.is
Í kjölfar Örþings í Ölfusi þann 9. desember sl. þar sem við fjölluðum um landeldi í Ölfusi og tækifæri Íslands til þess að framleiða hér ,,Premium lax“ í eldiskerjum í landi ræddi fréttastofa Bylgjunnar við sveitastjóra Ölfus, Elliða Vignisson. Fram kemur í máli Elliða að unnið er að uppbyggingu á eldisstöðvum í sveitafélaginu fyrir framleiðslu á 40-50 þúsund tonnum af laxi sem gæti skilað 50 milljarða útflutningsvermætum til þjóðarbúsins (hægt er að hlusta á fréttina með því að fylgja tenglinum HÉR).
Til samanburðar má nefna að á árunum 2012-2018 var útflutningsverðmæti loðnu að meðaltali 23,2 milljarðar. Það er síðan mikið áhyggjuefni að loðnu var ekki landað á árinu 2019 og horfur fyrir árið 2020 eru ekki góðar. Þrátt fyrir að Íslendingar séu meðal fremstu þjóða hvaða varðar sjálfbærni í nýtingu fiskstofna er ljóst að frekari sókn í villta stofna er takmörkuð þar sem veiðiálag er nú þegar mikið og takmörk fyrir því hvað hafið getur gefið af sér. Frekari sókn í sjávarútvegi mun því í framtíðinni byggja á sterkri fiskveiðistjórnun og verndun hafsvæða í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að gegnið sé of hart að veiðistofnum. Aukning í útflutningaverðmætum sjávarútvegsins mun í framtíðinni snúa í enn ríkara mæli að því að auka verðmæti þess afla sem þegar er landað í stað aukinna aflaheimilda. Þess má geta að afli dróst saman um 17% milli áranna 2018 og 2019 en á sama tíma jukust aflaverðmæti um 13,4%.
Það er því eðlilegt að menn horfi til landeldis og þá til svæða þar sem hagkvæmt er að byggja upp slíkt eldi þannig að það sé bæði arðbært og falli að kröfum samfélagsins um sjálfbæra þróun. Sveitafélagið Ölfus hefur margt að bjóða fyrir landeldi, það er ríkt af fersku náttúrulegu vatni og endurnýjanlegri orku ásamt því að sveitafélagið hefur unnið markvisst að uppbyggingu inniviða fyrir fyrirtæki í matvælaframleiðslu og spilar þar uppbygging hafnarinnar stórt hlutverk. Í erindi Sigurðar Inga Jónssonar á Örþinginu 9. desember, fjallaði hann um áform Fiskeldis Ölfus sagði hann klárt vera að af öllum sveitafélögum landsins væri ,,Ölfus sætasta stelpan á ballinu“.
Hér að neðan er hægt að sjá Örþingið í heild á Fésbókarsíðu ÖC.