Atvinnustefna Ölfuss
Vinna við atvinnustefnu Ölfuss í fullum gangi
Sveitarfélagið Ölfus vinnur nú að mótun nýrrar atvinnustefnu til næstu ára í samstarfi við Ölfus Cluster. Markmiðið er að efla fjölbreytt atvinnulíf, styðja við núverandi fyrirtæki og skapa ný tækifæri til framtíðar. Íbúar, fyrirtæki og hagaðilar taka virkan þátt í ferlinu og verða niðurstöður nýrrar stefnu kynntar síðar á árinu 2025.
Leiðandi aðilar:
Sveitastjórn fól Ölfus Cluster að móta atvinnustefnu með víðtæku samráði og voru þær Kolbrún Hrafnkelsdóttir og Sandra Mjöll Jónsdóttir fengnar til að koma að stefnumótunarvinnunni.
Ferlið:
Stöðumat, íbúakönnun, hagsmunaráð, vinnustofur og aðgerðaráætlun – með árlegu stöðumati og endurskoðun.
Hagsmunaráð:
Samráðsvettvangur íbúa, fyrirtækja og stjórnvalda sem skilgreinir áherslur og leggur fram tillögur.
Markmið:
Fjölbreytt atvinnulíf, sterk samvinna milli hagaðila og vönduð áætlanagerð til framtíðar.
Áherslusvið:
Sjávarútvegur og fiskeldi, matvælaframleiðsla, iðnaður og orka, ferðaþjónusta, nýsköpun og tækni, menntun og mannauður, samgöngur og hafnarstarfsemi.
Grunnstefna:
Sjálfbær, græn atvinnuuppbygging sem styður samfélagið, eykur lífsgæði og styrkir efnahagslegan stöðugleika





Grænn Iðngarður í Ölfuss
Niðurstöður í stuttri samantekt:
Skýrslan Grænir iðngarðar í Ölfusi, unnin af Kolbrúnu Hrafnkelsdóttur og birt í maí 2025, fjallar um möguleika sveitarfélagsins til að byggja upp græna iðngarða sem lykilþátt í sjálfbærri atvinnuuppbyggingu. Þar er dregið fram hvernig Ölfus býr yfir einstökum styrkleikum, svo sem ríku landrými, góðri hafnaraðstöðu, gnægð vatnsauðlinda og orku frá jarðvarma, ásamt nálægð við stærstu markaði landsins.
Markmið iðngarðanna væri að skapa samkeppnisforskot með því að samnýta auðlindir, orku og úrgang milli fyrirtækja og þannig stuðla að hringrásarhagkerfi, kolefnishlutleysi og vistvænum rekstri. Verkefnið á að laða að ný fyrirtæki, styrkja nýsköpun, fjölga störfum og bæta ímynd sveitarfélagsins sem leiðandi í grænni atvinnuuppbyggingu.
Skýrslan leggur fram hugmyndir að stjórnskipulagi þar sem Ölfus Cluster myndi fyrst stýra verkefninu, en síðar gæti það þróast í sjálfstæða einingu. Fjallað er um fjármögnun þar sem undirbúningsfasi krefst um 60 milljóna króna á ári í fjögur ár, með tekjumódeli byggðu á leigu, þjónustugjöldum, aðstöðugjöldum og sölu kolefniseininga.
Að lokum undirstrikar skýrslan að grænir iðngarðar í Ölfusi séu metnaðarfullt verkefni sem geti orðið aðlaðandi vettvangur fyrir sjálfbæra atvinnustarfsemi, rannsóknir og nýsköpun, og þannig skapað bæði efnahagslegan ávinning og aukin lífsgæði í sátt við náttúru og samfélag.
ÍBÚAKÖNNUN
Atvinnustefna í mótun
Stefnumótun og áætlanagerð fyrir sjálfbæra þróun og blómlegt samfélag.
Samantekt úr skýrslu um niðurstöður íbúakönnunar um atvinnustefnu fyrir Ölfus. Byggir á könnun sem gerð var meðal íbúa í mars 2024.
Niðurstöður í stuttri samantekt:
Í könnuninni var notuð SVÓT greining (Strengths, Weaknesses, Opportunities, Threats) til að meta stöðuna Ölfusi. Helstu styrkleikar sem voru tilgreindir voru höfnin, náttúruauðlindir og jákvæður hagvöxtur. Veikleikar voru meðal annars takmarkaður vinnumarkaður og neikvæð viðhorf sumra íbúa til uppbyggingar. Tækifærin snerust um að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og stækka höfnina. Ógnir voru meðal annars orkuskortur, neikvæð almenningsálit varðandi þróun og samgöngumál.
Í greining á kostum og göllum við að reka fyrirtæki í sveitarfélaginu var algengasti kosturinn „Höfnin“ og gott aðgengi að henni. Á eftir fylgja Gott samfélag og mannauður, Staðsetning sveitarfélagsins og Landrými.“ Helsti gallinn er Smæð samfélagsins eða fámenni. Næst koma Neikvætt viðhorf og Samgöngur.
Næst var beðið um að raða þáttum eftir mikilvægi fyrir atvinnulífið í Ölfusi næstu 3-5 árin. Fólk taldi gott aðgengi að höfn vera mikilvægast. Næst komu samgöngur og þjónusta sveitarfélagsins við fyrirtæki. Minna mikilvægi var lagt á aðgengi að alþjóðlegum flugvelli, húsnæðismarkaðinn í Ölfusi og stefnu ríkisstjórnarinnar.
Hvernig má bæta þjónustu sveitarfélagsins til að efla atvinnulíf í Ölfus? Niðurstöðurnar bentu á mikilvægi jákvæðni og góðs viðmóts gagnvart nýjum fyrirtækjum, uppbyggingu innviða, betri vetrarfærð, lækkun gjalda og aukningu á framboði lóða.
Næsta spurning snéri að því hvernig viðkomandi telji að sveitarfélagið geti fengið fyrirtæki til að fjárfesta í uppbyggingu innan sveitarfélagsins Ölfus. Flestir töldu að með jákvæðu viðhorfi, með skýrum áherslum í skipulagi, nægu framboði á lóðum ásamt frekari uppbyggingu innviða væru leiðirnar sem líklegastar væru til að ná árangri í því að hafa áhrif á fyrirtækin til að fjárfesta í Ölfusi Einnig var nefnt að halda úti kynningum og styrkja ímynd Sveitarfélagsins.
Tengill á skýrslu
Beðið var um að nefna og raða fimm mikilvægum gildum sem sveitarfélagið ætti að horfa til við mótun og framkvæmd stefnunnar. Algengustu gildin voru: Heiðarleiki; Umhverfismál; Rekstraröryggi/Öryggi; Nýsköpun og Frelsi.
Þátttakendur voru spurðir um fimm megináherslur í atvinnustefnu Ölfuss, raðaðar eftir mikilvægi. Megin áherslan var að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og laða ný fyrirtæki til svæðisins.
Loks var óskað eftir því að svarendur segðu frá sinni framtíðarsýn fyrir atvinnulífið í Ölfusi og var Gervigreind fengin til að setja saman heilstæða sýn byggða á svörum þátttakend.
Með því að taka þátt í íbúakönnun samþykkir þátttakandi að unnið sé með svör hans í samræmi við tilgang könnunar. Unnt er að afturkalla samþykki þar til könnun er formlega lokið. Til að afturkalla samþykki skal senda erindi á netfangið personuvernd@olfus.is. Afturköllun samþykkis er háð því að mögulegt sé að finna til svör sem rekjanleg eru niður á þátttakanda.
Könnunin fer fram í gegnum spurningaforritið SurveySparrow. Að henni lokinni eru upplýsingar teknar saman af Ölfus Cluster og sendar Sveitarfélaginu Ölfus. Öllum upplýsingum er í kjölfarið eytt úr SurveySparrow.
Upplýsingar um afstöðu íbúa til atvinnumála í sveitarfélaginu verða opinberar. Sveitarfélaginu Ölfus ber að varðveita gögn í sinni vörslu sem varða atvinnustefnu sveitarfélagsins. Skilaskyld gögn eru að endingu afhent Héraðsskjalasafni Árnesinga þar sem þau eru varðveitt til frambúðar.
Ölfus Cluster ses. telst ábyrgðaraðili könnunar í skilningi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Sveitarfélagið Ölfus er ábyrgðaraðili hvað varðar gögn í vörslu sveitarfélagsins.
Einstaklingar eiga ýmis réttindi samkvæmt persónuverndarlögum, svo sem rétt til að andmæla, takmörkunar, leiðréttingar, eyðingar (ef við á), aðgangs að gögnum o.fl. Vilji þáttakandi nýta réttindi sín, eða kalla eftir frekari upplýsingum sem varða könnun, skal senda erindi á persónuverndarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss í gegnum netfangið personuvernd@olfus.is.
Auk framangreinds getur þáttakandi sent inn kvörtun til Persónuverndar telji hann á sér brotið í skilningi persónuverndarlaga.

Atvinnustefna Ölfuss
Kæri íbúi Ölfuss,
Við bjóðum þér að taka þátt í að móta framtíð atvinnulífsins í sveitarfélaginu okkar. Atvinnustefnan þarf að eiga rætur í nærumhverfinu þannig að hún endurspegli þarfir, áherslur og væntingar samfélagsins í heild. Frá ykkur viljum við safna saman hugmyndum og fá ólík sjónarhorn upp á yfirborðið. Innlegg þitt skiptir máli varðandi mótun stefnu og forgangsröðun verkefna. Það er okkar trú að með samvinnu og góðri þátttöku munum við gera leiðarvísir að blómlegu atvinnulífi, heilbrigðu umhverfi og sterku samfélagi.
Með vinaþeli,
Elliði Vignisson
OLFUSCLUSTER.SURVEYSPARROW.COM
Könnunin verður opin til 25. mars og er bæði hægt að taka hana á íslensku og ensku. Þar sem að um að ræða grunn að mikilvægri stefnumótunarvinnu hvetjum við ykkur til að gefa ykkur góðan tíma til að svara. Ef einhverjar spurningar vakna þá er velkomið að senda fyrirspurn á netfangið: pmj@olfus.is