Tökum stöðuna til þess að geta mælt árangur sveitafélagsins í atvinnumálum

Írena Björk Gestsdóttir er 23 ára háskólanemi, hún varð stúdent af viðskipta- og hagfræðibraut úr Fjölbrautaskóla Suðurlands og stundar nú nám í viðskiptafræði með lögfræði sem auka grein við Háskólann í Reykjavík. Írena býr í Þorlákshöfn og er dóttir Guðbjargar Heimisdóttur og Gests Þórs Kristjánssonar. Hún á tvær yngri systur sem heita Anna Laufey og Olga Lind. Írena stefnir fyrst og fremst á að klára námið sem hún reyndar segir vera mjög spennandi en hvað tekur svo við að námi loknu er ekki alveg ákveðið – „Ætli það verði ekki að fá að koma í ljós en ég veit það verður eitthvað æði skemmtilegt“ segir Írena. Verkefnið sem Írena er að vinna heitir einfaldlega Atvinnulífið í Ölfusi. Verkefnið snýst í meginefnum um að kortleggja og búa til gagnabanka utan um alla atvinnustarfsemi í Ölfusi. Meðal annars skrá niður og fá yfirsýn yfir þær atvinnugreinar sem eru til staðar í sveitarfélaginu og hve margir starfa við hverja atvinnugrein. Auk þess að fá álit þeirra sem standa í rekstri um hvað sveitarfélagið getur gert betur þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrir fyrirtækin, slíkir hlutir koma oft ekki í ljós nema samtalið eigi sér stað. Þar að auki verður hægt að nýta gagnabankann á ýmsan hátt. Til dæmis til viðmiðunar á þróun atvinnulífs í framtíðinni og sjá þannig hvaða breytingar hafa orðið á atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu á milli ára – bæði í tengslum við atvinnuleysi og atvinnuaukningu. „Ég tel að gagnabankinn muni koma til með að nýtast samfélaginu í heild sinni þar sem stjórnendur sveitarfélagsins munu til að mynda fá betri yfirsýn yfir atvinnustarfsemina í sveitarfélaginu. Það mun gera það að verkum að hægt verður að gera sér betur grein fyrir því hvað sé hægt að gera betur fyrir þá sem standa hér í rekstri og á sama tíma sjá í hverju styrkleikar sveitarfélagsins liggja“. Írena er bjartsýn á framtíð Þorlákshafnar. „Eftir 10 ár býst ég við því að Þorlákshöfn verði einfaldlega höfuðborg Suðurlands þar sem allir vilja búa. Ég sé fyrir mér að stækkun sveitarfélagsins muni halda áfram á svipuðum hraða og verið hefur undandarið en íbúafjölgunin hefur verið um 10% á síðustu tveimur árum. Ef vel er haldið á spöðunum og með nægilegu framboði á lóðum er ekkert sem á að geta stöðvað þessa þróun. Ég tel mikilvægt að þjónustan í sveitarfélaginu haldi í við þessa íbúafjölgun, ekki síst fyrir barnafólk og því er nauðsynlegt að gæta þess að næg leikskólapláss séu til staðar og því er gott að heyra af áætlunum um byggingu nýs leikskóla. Uppbygging á þjónustu við okkar besta fólk, eldri borgarana er ekki síður mikilvæg en það eru þau sem hafa lagt grunninn að þessu góða samfélagi sem við búum í. Ég hef fulla trú á að þessi þróun gangi eftir. Þó litla Þorlákshafnar-hjartanu finnist voða notalegt að sveitarfélagið haldist bara lítið og krúttlegt líkt og þegar ég ólst hérna upp, þá er ég alveg til í að leyfa öðrum að njóta þess líka“. Írenu finnst mjög mikilvægt að haldið sé vel utan um atvinnumálin í sveitarfélaginu og hefur fulla trú á að það verði mikil þróun í þeim á næstu 10 árum. „Tilkoma nýrra fyrirtækja í sveitarfélagið er mikilvæg fyrir samfélagið, auk þess þó að halda vel utan um þau fyrirtæki sem eru nú þegar til staðar. Með stækkun hafnarinnar býst ég við auknum atvinnutækifærum og þar af leiðandi trúi ég að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af miklu atvinnuleysi í sveitarfélaginu í framtíðinni“. Írena bætir við að menning sé stór og mikilvægur partur í hverju samfélagi og finnst henni hún nokkuð góð hér í sveitarfélaginu. „Ég vil því sjá það góða menningarstarf sem er í sveitarfélaginu halda áfram að dafna, hvort sem það eru tónleikar, myndlistasýningar, leiklistarsýningar eða annað skemmtilegt af því sem er vel gert hér í Ölfusi. Við þetta má bæta að með nýjum og endurbættum miðbæ eru miklir möguleikar á að halda utan um menninguna enn frekar og búa til skemmtilega stemningu þar. Hlakka virkilega til að fylgjast með því þegar að því kemur!“ Lífsspeki Írenu á í raun og veru alltaf vel við, bæði í leik og starfi, en hún er einfaldlega: ,,Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig“. Það mættu gjarnan fleiri taka hana til fyrirmyndar J Að lokum tekur Írena fram að þessa dagana vinnum við í Ölfus Cluster að því að senda út spurningalista á fyrirtæki í sveitarfélaginu. Því mega fyrirtæki í Ölfusi búast við tölvupósti frá Írenu á næstunni. „Það væri afskaplega vel þegið ef fólk myndi svara þeim spurningalista fljótt og skilmerkilega en þannig fáum við sem besta mynd af stöðu atvinnulífsins í Ölfusi í dag“.