Hringrásarhagkerfi í þágu laxeldis:

Terraforming Life umbreytir úrgangi í orku og verðmæti

Með öflugri uppbyggingu landeldis á Laxabraut í Ölfusi eykst þörfin fyrir sjálfbærar lausnir í úrgangsmálum og auðlindanýtingu. Evrópuverkefnið Terraforming Life bregst við þessari áskorun með því að umbreyta lífrænum úrgangi frá fiskeldi og búfjárrækt í lífgas og verðmætar aukaafurðir – og stuðlar þannig að vistvænni framtíð atvinnulífsins í Ölfusi.

Á Laxabraut í Þorlákshöfn starfa nú fimm laxeldisfyrirtæki: Kaldvík, Arnarlax, First Water, Thor Salmon og GeoSalmo. Saman byggja þau upp einn öflugasta klasa landeldis á Íslandi – þar sem þörf er á nýstárlegum lausnum í úrgangsmálum, orkunýtingu og auðlindanýtingu í anda hringrásarhagkerfisins.

Verkefnið Terraforming Life vinnur að þróun og innleiðingu samþættra lausna þar sem laxamykja, húsdýramykja og dauðfiskum eru umbreytt í lífrænan áburð og lífgas. Með nýstárlegri tækni, s.s. SOLOVOX OXY-stream og Flow-Through System with Reuse (FTS-R), er markmiðið að ná hámarks endurheimt næringarefna með lágmarks umhverfisáhrifum.

„Landeldi í Ölfusi stendur á sterkum grunni og framtíð þess ræðst m.a. af því hvernig við leysum úr orkuskiptum og úrgangsmálum. Terraforming Life er skýrt dæmi um hvernig má þróa vistvænar lausnir í beinum tengslum við nýja atvinnugrein,“ segir verkefnisstjóri Terraforming Life.

Þáttakendur í verkefninu

Þátttakendur í verkefninu

Að verkefninu koma fimm samstarfsaðilar í fjórum löndum:

  • First Water hf. (Ísland) – Verkefnastjórn og þróun tæknikerfa fyrir fiskeldi, lífgas- og áburðarframleiðslu
  • Bændasamtök Íslands – Umsjón með söfnun búfjáráburðar og samfélagsmiðlun og útbreiðslu
  • Orkídea – Samstarfsverkefni – Vistferilsgreining á framleiðsluferlum og gæðaeftirlit fyrir framleiðslu áburðar og lífgass
  • SMJ Rådgivende Ingeniører AS (Danmörk) – Verkfræðistjórn, hönnun og eftirlit með byggingu lífgas- og áburðarverksmiðju
  • Ölfus Cluster SES – Yfirumsjón með staðbundinni innleiðingu, leyfisveitingum og samráði við heimamenn

Mikilvægi 

Þó að þróunar- og tilraunainnleiðing Terraforming Life eigi sér stað í Ölfusi, þá hefur verkefnið mun víðtækari skírskotun. Lausnir sem þróaðar eru hér nýtast beint á öðrum svæðum þar sem fiskeldi og landbúnaður eru stundaðir, bæði á Íslandi og annars staðar í Evrópu. Verkefnið styður þannig við:

  • Orkuskipti og loftslagsmarkmið
  • Sjálfbæra matvælaframleiðslu í dreifðum byggðum
  • Nýsköpun í úrgangsnýtingu og næringarefnahringrásum

Aðferðafræði og lausnir Terraforming Life geta orðið fyrirmynd að sjálfbærri atvinnuuppbyggingu á öðrum landsvæðum – sérstaklega þar sem tenging er milli landbúnaðar og sjávarútvegs – og styðja við nýsköpun, græn störf og loftslagsmarkmið til framtíðar.

Með verkefninu er stefnt að því að:

  • Framleiða allt að 100.000 tonn á ári af lífrænum áburði
  • Ná fram umtalsverðri minnkun kolefnislosunar (yfir 25.000 tonn CO₂eq á ári)
  • Skapa umtalsverð störf og tekjur, m.a. á landsbyggðinni og í sjávarbyggðum

Verkefnið er fjármagnað af LIFE umhverfissjóð Evrópusambandsins og mun styðja við þróun græns iðngarðs í Ölfusi þar sem sjálfbær nýting hráefna og lágmörkun sóunar verða í forgrunni.