Landræktun rauðþörunga í hringrásarhagkerfi tengd laxeldi
Lava Seaweed nýtir frárennslissvatn frá fiskeldi til sjálfbærrar þörungaræktar
Í Þorlákshöfn er Lava Seaweed að þróa sjálfbæra eldisstarfsemi þar sem frárennslisvatn frá fiskeldi er nýtt til landræktunar á rauðþörungum, sölvum (Palmaria palmata). Verkefnið byggir á hringrásarhugsun þar sem auðlindir eru nýttar og verðmæti skapast úr frárennslisvatni fiskeldis.
Tilraunaræktun Lava Seaweed er í samstarfi við laxeldi First Water, þar sem fyrirtækið hefur aðstöðu á lóð fiskeldisins og nýtir frárennslisvatn í eigin framleiðslu. Um er að ræða nýtingu affalsvatns sem fellur til við fiskeldi og er leitt inn í þörungarækt Lava Seaweed.
Hugmyndafræðin gengur út á að Lava Seaweed er að hanna rauðþörungarækt sem getur nýtt affallsstrauma frá öðru lagareldi og bundið í ljóstillífun koltvísýring (CO2) og uppleyst „næringarefni“ í fráfalli frá laxeldi sem fóður fyrir vöxt sölva. Með því skapast ákveðið samlífi í líffræðilegum skilningi, eða fjölrækt (á ensku skammstafað IMTA) þar sem fiskeldið losar frárennslisvatn sem ella væri kostnaður eða áskorun í meðhöndlun, á meðan þörungaræktin nýtir sama vatn sem auðlind í framleiðslu verðmætra afurða.
„Frárennslissvatnið sem kemur frá First Water er fullt af næringarefnum sem nýtast ekki lengur þar – en fyrir söl er þetta frábær auðlind,“ segir Ástráður Sigurðsson, verkefnastjóri Lava Seaweed.
Framleiðsla verðmætra þörungaafurða með ávinningi fyrir fiskeldi
Starfsemi Lava Seaweed snýr fyrst og fremst að framleiðslu verðmætra þörungaafurða. Samhliða því skapast ávinningur fyrir fiskeldi, þar sem nýting frárennslisvatns leiðir til lækkunar á umhverfisspori og betri nýtingar vatnsauðlinda.
Í dag fer ræktun á söl fram á tilraunaskala í gámum þar sem aðstæður eru stýrðar með tilliti til ljóss, hitastigs og flæðis. Söl nýta uppleyst næringarefni úr vatninu og virka þannig sem lífrænn „biofilter“ sem bætir vatnsgæði . Vatnið frá þörungaræktinni hefur því gegnum ljóstillífun og vöxt sölvanna verið hreinsað og verið er að meta möguleikann að endurnýta það eldisvatn aftur í laxeldið. Við vitum gegnum fyrri rannsóknir félagsins að það virkar mjög vel í samrækt með abalónum (e. abalone) og fyrstu niðurstöður gefa góðar væntingar að það væri líka möguleiki í landeldi á laxi.
„Við mælum magn uppleystra efna í flæði vatns bæði inn og út og sjáum skýran mun. Söl taka upp uppleyst efni úr vatninu og skila því mun hreinna — það sýnir vel hvernig þessi ræktun getur virkað sem lífsía (biofilter),“ útskýrir Ástráður.
Hraður vöxtur og skalanleg lausn
Niðurstöður tilraunaræktunarinnar lofar góðu, söl vaxa hratt og stöðugt við þessar aðstæður með vexti sem er allt að þrefalt meiri en þekkist víða annars staðar í heiminum þar sem birtar hafa verið niðurstöður um vöxt í landræktun sölva.
Fjölbreytt nýting og framtíðarmöguleikar
Söl eru þegar verðmæt afurð og Lava Seaweed hefur hafið sölu á þurrkuðum sölvum í samstarfi við Arctic Algae.
Samhliða því eru í gangi rannsóknir með Matís á næringargildi, vítamínum, steinefnum og mögulegri frekari vinnslu, meðal annars til lyfja- og/eða fæðubótarefna.
Söl eru hágæða hráefni, með lágu magni þungmálma og án bakteríuvaxtar. Þau innihalda mikið af steinefnum meðal annars Joð, vítamín (m.a. hátt hlutfall B12) og lífsnauðsynlegar amínósýrur og geta þannig orðið mikilvæg viðbót í til gerðar dýrafóðursbætis, fæðubótaefni og einnig möguleikar í lyfjageiranum.
Á sama tíma og fiskineysla Íslendinga hefur dregist saman og hefðbundnar joðuppsprettur minnkað, geta söl orðið hluti af lausninni og jafnframt endurvakið gamla íslenska matarhefð.
Lava Seaweed hefur fengið styrk frá RANNÍS og Umhverfissjóði Sjókvíaeldis sem lagt hafa grunninn að rannsóknum félagsins ásamt fjármagni og vinnuframlagi frá eigendum félagsins.