Mikilvægt að hafa gildi sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi þegar vöxtur sveitafélagsins er svona hraður

Máney Alda er 21 árs grunnnemi í fjármálahagfræði við Háskólann í Reykjavík. Máney er búsett í Reykjavík þar sem hún stundar nám sitt, en er að öðru leiti fædd og uppalin í Þorlákshöfn.

Verkefnið sem Máney sinnir í sumar er að stýra innleiðingu útreiknings kolefnisspors stofnanna sveitafélagsins. Verkefnið er nýtt og spennandi, og hefur gengið vel til þessa. Ölfus Cluster hefur t.a.m. gengið í samstarf við sprotafyrirtækið Greenfo, fyrirtæki sem um þessar mundir er að þróa hugbúnað sem gerir fyrirtækjum kleift að reikna út kolefnisspor sitt út frá upplýsingum sem liggja nú þegar fyrir í fjárhagsbókhaldi. Að sögn Máneyjar er verkefnið mikilvægur liður í framtíðarsýn/áætlun Ölfussar, sífellt stífari kröfur eru gerðar um aðgerðir stofnanna og fyrirtækja í umhverfis-/loftslagsmálum, og því er frábært að Ölfus sé farið af stað með þetta núna og getur vonandi sett gott fordæmi fyrir önnur sveitafélög. Það er virkilega áhugavert að fá að starfa með og aðstoða Greenfo i gagnasöfnun og þannig aðstoða við þróun á lausn fyrir fyrirtæki sem virkilega vilja minnka kolefnisspor sitt. Jöfnun kolefnis með því t.d. að planta trjám til þess að vega upp á móti þeirri losun sem fyrirtækið veldur er í rauninni aldrei nóg. Ef fyrirtækin reyna ekki draga úr eigin losun í starfseminni þá er plöntun trjáa í raun til lítils. Greenfo leggur upp með að veita fyrirtækjum lausnir til þess að greina hvar og hve mikil losun á sér stað í daglegu starfi fyrirtækisins sem síðan er hægt að nota til þess að taka ákvarðanir sem draga úr heildar losun.

Mikill uppgangur er í Ölfussi og erum við heppin að búa við þau tækifæri sem því fylgir.  Vöxtur sveitfélagsins er hraður og er því sérlega mikilvægt að sveitafélagið hafi ávallt til grundvallar gildi sjálfbærrar þróunar. Hér verður áfram gott að búa og með auknum áherslum í þágu atvinnulífsins, í þágu umhverfisins og í þágu barnafjölskyldna verður gott bara betra.

Eins og fram kom stundar Máney nám í fjármálahagfræði og stefnir á áframhaldandi nám í því, auk þess mun hún á komandi misserum þeyta próf í verðbréfaviðskiptum við Opna Háskólann samhliða náminu. Máney segir sig enn óvissa hvaða starfsleið hún muni velja í framtíðinni, en telur ansi líklegt að draumastarfið verði í efnahags- og fjármálageiranum.