VAXA Technologies – Nýsköpun og sjálfbær matvælaframleiðsla í hjarta Ölfuss

VAXA Technologies hefur á síðustu árum vakið athygli bæði á landsvísu og alþjóðlega fyrir framúrskarandi nýsköpun í sjálfbærri matvælaframleiðslu. Fyrirtækið, sem staðsett er í Ölfusi, ræktar örþörunga með háþróaðri ljósastýrðri ræktunartækni og framleiðir næringarríkar afurðir með lágu kolefnisspori – meðal annars fyrir heilbrigðis-, íþrótta- og fæðubótamarkaði.

Við tókum púlsinn á fyrirtækinu og fengum innsýn í starfsemina og hvernig hún nýtist samfélaginu í Ölfusi.

Tæknin sem breytir leiknum

„Kjarninn í starfsemi okkar er að sameina náttúru og tækni,“ segir Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri VAXA eða Kiddi eins og hann er ávallt kallaður. „Við ræktum örþörunga í lokuðu og stýrðu kerfi þar sem við nýtum hreina íslenska orku og ferskt vatn. Með því náum við að framleiða fæðu á umhverfisvænan hátt, án notkunar á skordýraeitri eða landrými sem annars væri nýtt til landbúnaðar.“

Mikilvægur þáttur í sjálfbærni fyrirtækisins er nýting jarðhita úr Ölfusi, sem veitir stöðugan og kolefnissnauðan orkugjafa fyrir ræktunarkerfi og hitastýringu. „Jarðhitinn í Ölfusi er einstök auðlind sem gerir okkur kleift að reka framleiðsluna á loftslagsvænan hátt allt árið um kring,“ segir Kiddi. „Hann, jarðhitinn, er burðarásinn í þeirri grænu lausn sem við byggjum starfsemina á.“

Atvinnusköpun og samfélagsleg áhrif

„Við erum stolt af því að hafa skapað fjölbreytt og sérhæfð störf í sveitarfélaginu – störf sem tengjast meðal annars líftækni, framleiðslu, rannsóknum og verkfræði,“ segir Kiddi. „Staðsetning ræktunarinnar okkar í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði er einstök; þar nýtum við þær náttúruauðlindir sem svæðið býður upp á – ekki síst jarðhitann sem er burðarás í okkar sjálfbærru orkunýtingu.“

Hann bætir við að flutningur hluta starfseminnar til Þorlákshafnar hafi verið mikilvægur þáttur í þróun fyrirtækisins. „Við höfum hafið framleiðslu á náttúrulegum bláum lit úr þörungum þar, og það verkefni hefur gengið afar vel. Við sjáum fram á að efla starfsemina enn frekar á svæðinu, og áætlanir okkar gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun starfa á næstu árum – enda er eftirspurnin eftir okkar afurðum sívaxandi.“

VAXA hefur lagt áherslu á að ráða fólk úr heimabyggð og segir tenginguna við samfélagið skipta miklu máli. „Þegar við festum rætur hér sáum við strax tækifæri í að vinna með fólkinu í kringum okkur, og okkur hefur verið vel tekið.“

Samvinna og framtíðarsýn

Fyrirtækið hefur átt í virku samstarfi við menntastofnanir, svo sem Landbúnaðarháskóla Íslands, og sér tækifæri í að efla samvinnu við aðra aðila innan Ölfus Cluster.

„Við erum hluti af samfélagi sem er í mikilli uppbyggingu og framþróun,“ segir Kiddi. „Ölfus hefur mikla möguleika sem miðstöð fyrir grænar lausnir og við viljum vera virkur þátttakandi í þeirri vegferð.“

Næstu skref

VAXA stefnir að aukinni framleiðslu og markvissri nýtingu allra efnisstrauma innan kerfisins. Með því að samræma orkugjafa, ræktun og afurðavinnslu innan hringrásar er markmiðið að framleiðslan skili í heildina jákvæðum áhrifum á loftslag – þar sem hringrás samanlagðra afurða binda meira kolefni en við losum við framleiðsluna.